fbpx

SAGAN OKKAR

Þorvaldur Guðmundsson og Ingibjörg Guðmundsdóttir stofnuðu Hótel Holt árið 1965. Á lífsleiðinni komu þessi samhentu hjón að byggingu og rekstri margra fyrirtækja á Íslandi, í matvælaiðnaði, veitinga- og hótelrekstri. Þau höfðu yndi af ferðalögum og á ferðum sínum nýttu þau tímann til að kynna sér það nýjasta í hótel- og veitingageiranum erlendis og fluttu þá þekkingu heim með sér. Hótel Holt hefur frá upphafi verið þekkt innanlands sem utan fyrir alúð og gestrisni eigenda og starfsfólks, sem og auðvitað hið einstaka safn íslenskrar myndlistar sem prýðir hótelið.

 

„Frá því þú stígur inn á Hótel Holt þar til þú ferð úthvíldur

og endurnærður, munt þú upplifa vinaleg viðmót og

persónulega þjónustu, einkenni hótelsins.“

– Þorvaldur Guðmundsson

1944

Þorvaldur Guðmundsson opnaði verslunina Síld og fiskur í því húsnæði sem Hótel Holt er nú til húsa. Úrvalið og gæði varanna þótti fyrsta flokks og verslunin nýtískuleg. Síðar stofnaði Þorvaldur svínabú á Minni-Vatnsleysu sem enn starfar en nú undir merkjum Ali. Kjötvinnslan og verslunin var flutt úr Bergstaðastrætinu árið 1980 í Hafnarfjörð.

1950

Pylsubarinn í Austurstræti 22 opnaði og var líklega upphafið að þjóðarrétti Íslendinga, „einni með öllu“. Í upphafi gekk erfiðlega að fá leyfi fyrir þessari nýju tegund veitingareksturs því bæjaryfirvöld óttuðust að af slíkum stað hlytist óþrifnaður. Sá ótti reyndist þó óþarfur og leyfið fékkst með því skilyrði að einnig yrðu seld dagblöð á staðnum. Dagblaðasalan var dræm, enda blöðin yfirleitt geymd undir borði, en pylsurnar slógu í gegn!

1951

Þorvaldur tók við rekstri Þjóðleikhúskjallarans árið 1951 og stýrði til loka árs 1966. Þar þótti vinsælt að snæða fyrir sýningar í Þjóðleikhúsinu en einnig voru haldnar þar opinberar veislur þegar erlendir mektarmenn komu til landsins. Árviss viðburður var nýársveisla Þjóðleikhúskjallarans þar sem ekkert var til sparað. Gestir fengu heim með sér áritaða postulínsbakka með matseðlinum á, sem síðar urðu safngripir.

 

Áhugi á myndlist fylgdi Þorvaldi hvar sem hann starfaði. Í Þjóðleikhúskjallaranum hugðist hann efna til myndlistarsýninga og fyrstu sýninguna hélt Jón Engilberts. Þegar sýningin hafði verið uppi í nokkra daga kom fulltrúi Þjóðleikhúsráðs að máli við Þorvald, því honum hafði láðst að biðja um leyfi fyrir sýningahaldinu. Var hann vinsamlegast beðinn um að taka sýninguna niður, þar sem myndirnar þættu of lostafullar fyrir virðulegt þjóðleikhús. Þótti Þorvaldi þetta leiðinlegt, en þeir Jón höfðu nú samt lúmkst gaman að þessu, sem þeir kölluðu sín á milli „náttúruleysi Þjóðleikhúsráðs“. Lauk þar með viðleitni Þorvaldar til að skreyta Þjóðleikhúsið íslenskri myndlist.

1959

Þorvaldur opnaði veitinga- og skemmtistaðinn Lídó og á opnunarkvöldinu var haldin árshátíð Stangveiðifélags Reykjavíkur. Vakti athygli hve margir voru áfjáðir að komast í það boð, hvort sem þeir voru áhugamenn um stangveiði eða ekki. Gestir kvöldsins voru 453, matseðillinn var fjórréttaður og kostaði 100 krónur á manninn. Litlu munaði þó að borðbúnaður veitingastaðarins næði ekki til landsins í tæka tíð fyrir opnunarkvöldið en vegna lokana á flugvöllum erlendis tafðist sendingin. Til allrar hamingju komust „hinir fljúgandi diskar“ þó á áfangastað daginn fyrir opnunarkvöldið, svo allt fór vel að lokum.

1960

Bændasamtök Íslands báðu Þorvald að stýra framkvæmdum á gisti- og veitingaaðstöðu í höfuðstöðvum sínum við Hagatorg í Reykjavík sem þá voru í byggingu. Fékk hótelið nafnið Hótel Saga eftir hugmynd Ingibjargar, eiginkonu Þorvaldar. Hótel Saga opnaði 1962 og gegndi Þorvaldur stöðu hótelstjóra næstu tvö árin. Var þetta í fyrsta sinn sem Þorvaldur kom nálægt hótelrekstri en þar með var áhuginn vakinn. Nokkru síðar byggði hann sjálfur Hótel Holt og kom að rekstri Hótel Valhallar á Þingvöllum. Árið 1966 aðstoðaði hann Loftleiðamenn við að koma á fót Hótel Loftleiðum sem í dag heitir Icelandair Hotel Reykjavík Natura.

1965

Hótel Holt hóf starfsemi þann 12. febrúar 1965 eftir einungis níu mánaða byggingartíma. Fyrst um sinn voru herbergin þrjátíu en Gunnlaugur Pálsson arkitekt og Hörður Bjarnason húsameistari ríkisins teiknuðu bygginguna. Þorvaldur réði Gunnar Magnússon innanhússarkitekt til að hanna útlit, innréttingar og húsgögn hótelsins en Gunnar er einn af frumkvöðlum í íslenskum húsgagna- og innanhússarkitektúr á 20. öld.

 

Í grein í Morgunblaðinu lýsir blaðamaður heimsókn sinni á Hótel Holt og þykir greinilega mikið til koma. Íslensk myndlist prýðir veggi hótelsins hvert sem litið er og hótelið búið öllu því besta sem völ er á. Með opnun Hótel Holts sameinaði Þorvaldur tvö helstu áhugamál sín, listaverkasöfnun og hótelrekstur.

1970

Margt hefur breyst í áranna rás eins og sést vel í þessum bækling sem að öllum líkindum er hluti af elsta kynningarefni hótelsins. Orð þáverandi hótelstjóra, Þorvaldar Guðmundssonar eiga þó enn við:

Frá því þú stígur inn á Hótel Holt þar til þú ferð

úthvíldur og endurnærður, munt þú upplifa vinalegt

viðmót og persónulega þjónustu, einkenni hótelsins.

Láttu fara vel um þig á Hótel Holti og ef það er

eitthvað sem við getum gert til að dvöl þín verði enn

ánægjulegri, þarftu bara að biðja.


1972

Þorvaldur Guðmundsson var fenginn til að skipuleggja lokahóf heimsmeistaraeinvígisins í skák milli Bobby Fisher og Boris Spassky, sem gjarnan hefur verið nefnt „einvígi aldarinnar“. Veislan fór fram í Laugardalshöll með 1000 til 1500 gestum og á matseðlinum var íslenskt fjallalamb og mjólkurgrísir frá svínabúi Þorvaldar.

 

Veislan tók tvo mánuði í skipulagningu og var  ekkert til sparað.  Mjöðurinn „Víkingablóð“ var sérbruggaður fyrir veisluna og þjónustufólk var klætt upp í víkingastíl með víkingahjálma á höfðum. Sérhannaður borðbúnaður og drykkjarhorn voru flutt til landsins og gátu gestir tekið hann með sér heim að veislu lokinni. Veislan þótti einkar vel heppnuð, svo sannarlega réttnefnd „veisla aldarinnar“!


1973

Ný álma var byggð við hótelið og tekin í notkun í apríl 1973. Með stækkuninni urðu hótelherbergin 53. Á jarðhæð nýju álmunnar opnaði Þingholt, sérstakur funda- og veislusalur, innréttaður í klassískum enskum stíl af Gunnari Magnússyni húsgagna- og innanhússarkitekt.

1974

Við innganginn að Þingholti er glæsilegt útilistaverk eftir myndhöggvarann Ragnar Kjartansson (1923-1988). Verkið, sem nefnist Ásgarður á rætur í norrænni goðafræði:

 

Óðinn ríður Sleipni, hrafnarnir Huginn og Muninn leiða.

Úlfarnir Geri, Freki og Breki, fylgja eftir.

Einherjar eru förunautar hans.

Þór með hamar sinn bíður þeirra í Þrúðvangi.

 

Tvö önnur vegglistaverk eftir Ragnar er að finna á hótelinu. Þau eru staðsett á efri hæðum hótelsins og er myndefnið íslenskir atvinnuvegir, sjávarútvegur og verslun.


1980

Þorvaldur og Ingibjörg festu kaup á Lífshlaupinu eftir Jóhannes S. Kjarval, verki sem hann málaði á veggi vinnustofu sinnar á efstu hæð í Austurstræti 12 á árunum 1929-33. Myndefnið var hversdagurinn, íslenskir atvinnuhættir í sveit og borg. Hluta þess má sjá sem ljósmynd af frumverkinu á barnum í Þingholti.

 

 

1984

Í viðtali í Morgunblaðinu við son stofnendanna og þáverandi hótelstjóra, Skúla Þorvaldsson, kemur fram að í takt við breyttan viðskiptahóp hótelsins hafi skapast þörf á endurbótum. Því var móttakan stækkuð og nýr bar innréttaður. Herbergin voru einnig endurnýjuð og svítum fjölgað. Eins og Skúli orðaði það: „Allt endurnýjað nema viðmótið.“

 

 

1988

Ólafur V Noregskonungur kom í opinbera heimsókn til Íslands á haustdögum 1988. Hann bauð til veislu á Hótel Holti til heiðurs þáverandi forseta Íslands, frú Vigdísi Finnbogadóttur.

 

Matseðill kvöldsins var svohljóðandi:

 

Forréttur:

Reyktur, grafinn og sítrónumarineraður lax

Aðalréttur:

Hreindýrasteik á norska vísu ásamt villibráðarsósu

Eftirréttur:

Ávaxtaís með heitri apríkósusósu

2004

Hótel Holt hefur frá upphafi verið í eigu sömu fjölskyldunnar. Geirlaug Þorvaldsdóttir, elsta dóttir hjónanna keypti hlut systkina sinna í hótelinu árið 2004 og hefur rekið hótelið sjálf frá 2011.

2007

Gallery Restaurant var rekinn af feðgunum Eiríki Inga Friðgeirssyni og Friðgeiri Inga Eiríkssyni. Veitingastaður hótelsins hefur frá upphafi verið fyrsta flokks í hvívetna og sameinað framúrskarandi matargerð og myndlist. Klassísk frönsk matargerð hefur alltaf verið í fyrirrúmi en ekki fylgt tískusveiflum. Veitingastaðurinn hefur alið af sér marga helstu fagmenn stéttarinnar, hvort heldur sem er í matreiðslu eða framreiðslu og hafa margir þeirra unnið til verðlauna.

Veitingastaðurinn á Hótel Hoti heitir nú Holt Restaurant og er rekinn af hótelinu.

 


2012

Fyrsta hæð hótelsins var friðuð þann 31. desember 2012. Það þýðir að ekki má breyta eða taka niður innréttingar á hæðinni. Innréttingarnar hannaði Gunnar Magnússon húsgagna- og innanhússarkitekt. Þær eru haganlega smíðaðar og þykja mikil prýði.


2013

Ragnar Kjartansson (f. 1976) listamaður sýndi sjálfsmyndir á Hótel Holti vorið 2013 en sýningin var hluti af Sequences sjónlistahátíðinni það ár. Verkin málaði Ragnar á meðan hann dvaldi í herbergi 413 á hótelinu og var þeim stillt upp innan um verk sögufrægra íslenskra málara.

2015

Í tilefni af 50 ára afmæli Hótel Holts var Gísli B. Björnsson, sem upphaflega hannaði merki hótelsins fenginn til að setja það í afmælisbúning. Einnig var haldin veisla þar sem vinsælir réttir hótelsins frá liðinni tíð, eins og lambakjöt og grafinn lax voru framreiddir. Sigrún Hjálmtýsdóttir, Diddú, skemmti gestum með söng.

2016

Jóakim Danaprins og Marie prinsessa sóttu Ísland heim í byrjun árs 2016 í tilefni af 100 ára afmæli Dansk-Islandsk Samfund og dvöldu á Hótel Holti á meðan heimsókninni stóð. Þau snæddu hátíðarkvöldverð í boði Dansk-Islandsk Samfund ásamt íslenskum ráðamönnum á veitingastað hótelsins.